Evrópuævintýri FH er svo til á enda komið

Bergsveinn Ólafsson lætur leikmann Braga heyra það í gær.
Bergsveinn Ólafsson lætur leikmann Braga heyra það í gær. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Evrópuævintýri Íslandsmeistara FH er svo til á enda komið eftir 2:1 ósigur á heimavelli gegn portúgalska liðinu Braga í fyrri viðureign liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í gærkvöld. FH-ingar gáfu Braga góðan leik og veittu svo sannarlega harða mótspyrnu en eins og góðu atvinnumannaliði sæmir refsaði það FH fyrir mistökin sem það gerði sig sekt um.

Fyrri hálfleikurinn var vel spilaður af hálfu FH-liðsins. Það hafði flest ráð portúgalska liðsins í höndum sér og með skipulögðum og öguðum leik gerðu FH-ingar liði Braga lífið leitt. Á 40. mínútu skoraði Halldór Orri Björnsson hreint gull af marki, en eftir að hafa fengið frábæra sendingu frá Steven Lennon lagði Halldór Orri boltann fyrir sig og skrúfaði hann efst upp í markhornið frá vítateigshorni. Fyrsta Evrópumark Halldórs þar með staðreynd.

,,Það var mjög svekkjandi að fá ekkert út úr þessum leik en mér fannst við standa vel uppi í hárinu á þeim og sýna að við eigum möguleika á móti svona liðum. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að möguleikarnir á að komast áfram eru harla litlir fyrst svona fór,“ sagði Halldór Orri við Morgunblaðið. Spurður út í markið sagði hann: „Það var algjör draumur að ná að skora þetta mark. Ég fékk frábæra sendingu frá Lennon og ég náði svo að smellhitta boltann eftir að hafa lagt hann fyrir mig. Það var mjög sætt að sjá hann liggja í netinu,“ sagði Halldór Orri, sem hefur átt frekar erfitt uppdráttar í FH búningnum frá því hann kom til Hafnarfjarðarliðsins frá Stjörnunni fyrir tímabilið.

Nánar er fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert