Þór/KA í riðli með Ajax

Anna Rakel Pétursdóttir og liðsfélagar hennar í Þór/KA fara til …
Anna Rakel Pétursdóttir og liðsfélagar hennar í Þór/KA fara til Norður-Írlands í undankeppni meistaradeildarinnar. Árni Sæberg

Núna um hádegið var dregið í undankeppni Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu. Íslandsmeistarar Þórs/KA, sem voru í 2. styrkleikaflokki, voru dregnir í riðil 1 ásamt Ajax frá Hollandi, Linfield frá Norður Írlandi og Wexford frá Írlandi. Leikirnir fara fram 7.-13. ágúst á Norður-Írlandi.

Gestgjafar riðils 1 verða Linfield og leikið í Belfast. Keppnisfyrirkomulagið í undankeppninni er hraðmót þar sem riðillinn er leikinn á tæpri viku Fyrirfram má áætla að baráttan um toppsætið í riðlinum verði á milli Þórs/KA og Ajax.  

Úr þeim 10 riðlum sem dregið var í komast 12 lið áfram. Sigurvegarar riðlanna komast beint áfram en einnig þau tvö lið sem ná  bestum árangri í öðru sæti. Þar mæta þau þeim 20 liðum sem komust beint í 32 liða úrslit.

Þess skal getið að Glódís Perla Viggósdóttir er í liði Rosengård frá Svíþjóð sem er eitt þeirra 20 liða sem fór beint í 32 liða úrslit keppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert