Gott að vera á toppnum en ekki hættar

Anna Rakel Pétursdóttir.
Anna Rakel Pétursdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er bara virkilega sátt. Mér fannst við heilt yfir töluvert betri í leiknum og vorum bara með yfirhöndina allan tímann,“ sagði Anna Rakel Pétursdóttir, leikmaður Þórs/KA, eftir 5:0 sigur á Grindavík í Pepsi-deildinni í kvöld.

Þrátt fyrir yfirburði í leiknum tók töluverðan tíma fyrir liðið að skora en fyrsta markið kom undir lok fyrri hálfleiks. Anna sagði það hafa verið mikilvægt að ná að skora fyrir hálfleik.

„Þetta var mjög mikilvægt mark og gaf okkur extra kraft inn í seinni hálfleikinn.“

Anna Rakel spilaði vel í kvöld. Skoraði fyrsta mark leiksins og lagði upp tvö til viðbótar, hún var sátt við sína spilamennsku: „Þetta var bara heilt yfir mjög gott og ég er bara ánægð. Gaman að fá séns á miðjunni líka.“

Anna Rakel spilaði á miðjunni í dag í fjarveru Calderon sem er meidd. En hvernig er að spila á miðjunni miðað við vængbakvörðinn sem þú spilar vanalega?

„Mér finnst það bara mjög gaman. Það er gott að geta spilað fjölbreytt og eins margar stöður og maður getur. Ég var bara sett í þetta verkefni núna og það var bara gaman.“

Með sigrinum fer liðið á topp deildarinnar með 26 stig. Tveimur stigum á undan Breiðabliki sem á leik til góða. Spurð um toppsætið sagði Anna: „Það er alltaf gott að vera á toppnum en við erum ekkert hættar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert