Pedersen með eins marks forskot

Patrick Pedersen hefur verið sjóðheitur með Val í seinni umferð …
Patrick Pedersen hefur verið sjóðheitur með Val í seinni umferð Íslandsmótsins. mbl.is/Árni Sæberg

Patrick Pedersen úr Val hefur eins marks forskot á Hilmar Árna Halldórssyni úr Stjörnunni í einvíginu um markakóngstitil Pepsi-deildar karla í knattspyrnu fyrir lokaumferð deildarinnar sem verður leikin á laugardaginn kemur, 29. september.

Pedersen skoraði sitt 17. mark í dag þegar Valur tapaði 2:1 fyrir FH í Kaplakrika. Hilmar Árni skoraði sitt sextánda mark, og það fyrsta í sjö leikjum, þegar Stjarnan tapaði 2:1 fyrir ÍBV í Vestmannaeyjum.

Markamet deildarinnar er 19 mörk en Pétur Pétursson setti það árið 1978 og fjórir leikmenn hafa síðan jafnað það, Guðmundur Torfason 1986, Þórður Guðjónsson 1993, Tryggvi Guðmundsson 1997 og Andri Rúnar Bjarnason 2017.

Valsmenn eiga heimaleik gegn Keflavík í lokaumferðinni en Stjarnan á heldur erfiðara verkefni sem er heimaleikur gegn FH. Valsmenn verða sem kunnugt er Íslandsmeistarar með sigri í leiknum og líklega einnig með jafntefli.

Keflavíkurliðið er neðst í deildinni, án sigurs og hefur fengið á sig 45 mörk. Það er því alls ekki óraunhæft að Pedersen gæti í það minnsta jafnað markametið með því að skora tvö mörk í þeim leik, eða sett nýtt met og orðið fyrstur í 20 mörkin með því að skora þrennu í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert