„Mér er heiður sýndur“

Frá blaðamannafundinum í gær. Guðrún Inga Sívertsen varaformaður KSÍ, Ian …
Frá blaðamannafundinum í gær. Guðrún Inga Sívertsen varaformaður KSÍ, Ian Jeffs aðstoðarþjálfari, Jón Þór og Guðni Bergsson formaður KSÍ. mbl.is/Hari

KSÍ réð í gær Jón Þór Hauksson sem þjálfara kvennalandsliðsins í knattspyrnu. Honum til aðstoðar verður Ian Jeffs sem Jón óskaði eftir að fá í þjálfarateymið. Jón Þór er ekki þekktur maður í íslensku íþróttalífi þótt þeir sem fylgjast grannt með knattspyrnunni þekki til hans. Jón hefur haft lifibrauð sitt af þjálfun í meira en áratug þótt hann hafi takmarkað verið í því sviðsljósi sem fylgir meistaraflokksliðum.

„Þegar KSÍ hafði samband kom ég af fjöllum hvað það varðar að mér var ekki kunnugt um að það hefði áhuga á að ráða mig. Ég hafði ekki hugsað út í þann möguleika. Þegar það kom upp var eindreginn áhugi hjá mér að taka við starfinu. Mér er heiður sýndur að fá að þjálfa þetta lið næstu árin og er þakklátur fyrir tækifærið,“ sagði Jón Þór þegar Morgunblaðið tók hann tali á blaðamannafundi í gær.

Fær góðan tíma til að átta sig

Jón Þór sagði á blaðamannafundinum í gær að hann útilokaði enga leikmenn til dæmis út frá aldri. Hann vildi einfaldlega nota bestu leikmenn Íslands að sínu mati í landsliðið. Tæpt ár er þar til næsta undankeppni hefst hjá landsliðinu en í september verða fyrstu leikirnir í undankeppni EM 2021. Þeir Jón og Jeffs fá því góðan tíma til að átta sig á því hvaða leiðir þeir vilja fara og hvaða leikmenn verða í burðarhlutverkum í liðinu undir þeirra stjórn.

 Hefur Jón fengið einhverjar vísbendingar frá KSÍ um hversu marga vináttulandsleiki liðið kemur til með að fá fram að undankeppninni, fyrir utan þá leiki sem í boði eru á Algarve? „Ég vonast eftir því að við fáum vináttulandsleiki í janúar og í júni fyrir utan leikina á Algarve. Við eigum eftir að skoða betur í samráði við KSÍ hvernig er best hægt að nýta þann tíma sem býðst til að ná hópnum saman.“

Nánar er fjallað um nýjan landsliðsþjálfara í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert