Erum að gera eitthvað rétt

Ari Freyr Skúlason sækir að Eden Hazard í kvöld.
Ari Freyr Skúlason sækir að Eden Hazard í kvöld. AFP

„Ef við töpum fyrir besta liði í heiminum og tvenn mistök kostuðu okkur tvö mörk, erum við að gera eitthvað rétt,“ sagði Ari Freyr Skúlason eftir 0:2-tap íslenska landsliðsins fyrir Belgíu í Þjóðadeildinni í fótbolta í kvöld. 

Þrátt fyrir tap var Ari Freyr ánægður með margt hjá íslenska liðinu í leiknum. 

„Þetta var nýtt leikkerfi með fullt af nýjum leikmönnum og liðið vann rosalega vel og allir börðust fram að síðustu mínútu. Við tökum það jákvæða og hugsum um næsta ár.“

Íslenska liðið spilaði með fimm manna vörn og gekk Belgum erfiðleika að skapa alvörufæri gegn skipulögðu íslensku liði. 

„Þeir komu með einhverjar fyrirgjafir og annað en það kom ekkert út úr því. Það er erfitt að spila á móti fimm manna línu og sérstaklega ef maður verst vel og allir hlaupa. Við hefðum svo getað skorað eitt og kannski tvö ef heppnin hefði verið með okkur.“

Ísland er búið að leika tólf leiki í röð án sigurs og vill Ari laga það gegn Katar í vináttuleik á mánudaginn kemur. 

„Það eruð þið fjölmiðlar sem eruð að segja oft og mörgum sinnum hvað er langt síðan við unnum mótsleik og auðvitað viljum við enda þetta ár með sigri fyrir okkur sjálfa,“ sagði Ari. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert