Leiðir þjálfaranna skilja

Helgi Kolviðsson og Heimir Hallgrímsson
Helgi Kolviðsson og Heimir Hallgrímsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heimir Hallgrímsson hefur verið ráðinn þjálfari katarska knattspyrnufélagsins Al Arabi. Þetta staðfesti félagið í gær en Heimir verður kynntur fyrir fjölmiðlum í Doha í dag á hádegi að staðartíma, eða klukkan níu að morgni að íslenskum tíma.

Heimir verður þar með einn átta Evrópubúa sem stýra liðum í hinni 12 liða stjörnudeild, efstu deild Katar, þar sem Al Arabi situr í 6. sæti.

Samkvæmt frétt RÚV gildir samningur Heimis til hálfs þriðja árs, eða fram til sumarsins 2021, og verður hann með hinn 24 ára gamla Bjarka Má Ólafsson sér til aðstoðar.

Heimir virtist með önnur markmið í huga þegar hann sagði við mbl.is í sumar að hann vildi helst taka við liði í enskumælandi landi, en ekki virðist hafa borist nægilega freistandi tilboð um slíkt starf.

Stuttgart og Vancouver

Heimir kom hins vegar sterklega til greina sem þjálfari hjá þýska stórliðinu Stuttgart og átti fund með forráðamönnum félagsins. Þá var hugsunin sú að hann yrði með Helga Kolviðsson sér til aðstoðar, líkt og síðustu tvö ár sín hjá íslenska landsliðinu. Svo fór þó að í október réði Stuttgart Þjóðverjann Markus Weinzierl í starfið. Heimir kom einnig sterklega til greina sem þjálfari Vancouver Whitecaps í bandarísku MLS-deildinni, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Leiðir Heimis og Helga skilja og vel gæti farið svo að Helgi yrði í vikunni ráðinn þjálfari landsliðs smáríkisins Liechtenstein, en hann hefur fundað tvisvar með forráðamönnum knattspyrnusambands landsins og segir málið skýrast á næstu dögum. Helgi segir þá Heimi hafa rætt nánast daglega saman undanfarnar vikur og honum hafi því verið fullkunnugt um það að Heimir væri að taka við Al Arabi, en aldrei hafi þó staðið til að Helgi færi einnig til Katar.

Nánar er rætt er við Helga í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert