Kíkir beint í símann eftir leik

Dóra María Lárusdóttir viðurkennir að það sé ákveðin pressa á …
Dóra María Lárusdóttir viðurkennir að það sé ákveðin pressa á Valsliðinu að misstíga sig ekki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er fyrst og fremst sátt með þessi þrjú stig,“ sagði Dóra María Lárusdóttir, miðjumaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 3:0-sigur liðsins gegn KR í 11. umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

„Varnarleikurinn var þéttur í kvöld en við hefðum kannski mátt setja meira tempó í uppspilið okkar. Að sama skapi er erfitt að kvarta eitthvað sérstaklega þegar maður vinnur 3:0 en við höfum vissulega átt betri leiki. Ég hefði viljað keyra aðeins meira á þær og setja meiri hraða í það sem við vorum að gera þar sem þær eru að koma úr ágætisleikjatörn en við héldum boltanum vel og sköpuðum okkur fín færi líka.“

Valskonur eru sem fyrr í efsta sæti deildarinnar eftir sigur kvöldsins með jafn mörg stig og Breiðablik en bæði lið eru með fullt hús stiga.

„Við erum fyrst og fremst bara að hugsa um okkur sjálfar en auðvitað kíkir maður í símann eftir leik á úrslitin í öðrum leikjum. Hvert einasta stig skiptir máli þótt þetta sé tveggja hesta barátta sem stendur. Við megum alls ekki við því að misstíga okkur og það hefur sýnt sig í sumar að það hafa dottið inn óvænt úrslit hér og þar í bikarnum, þótt það hafi ekki gerst enn þá í deildinni.“

Breiðablik fær Val í heimsókn í 17. umferð deildarinnar á Kópavogsvöll og eiga margir von á því að baráttan um Íslandsmeistaratitilinn muni ráðast í þeim leik.

„Ég á von á því að liðin fyrir neðan okkur muni plokka einhver stig af liðunum í efri hlutanum en við reynum að einblína ekki of mikið á þennan leik í næstsíðustu umferðinni en vissulega er ákveðin pressa á okkur að misstíga okkur ekki,“ sagði Dóra María í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert