Bannað að spyrja Kolbein um handtökuna

Kolbeinn Sigþórsson jafnaði markamet Eiðs Smára í síðasta mánuði.
Kolbeinn Sigþórsson jafnaði markamet Eiðs Smára í síðasta mánuði. mbl.is/Hari

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er komið saman í Antalya í Tyrklandi fyrir leikinn mikilvæga við Tyrki í undankeppni EM, í Istanbúl á fimmtudaginn.

Kostur gafst á viðtölum við valda leikmenn úr íslenska liðinu í dag, þar á meðal Kolbein Sigþórsson sem með einu marki til viðbótar bætir markamet Eiðs Smára Guðjohnsen hjá íslenska landsliðinu. Samkvæmt frétt Fótbolta.net frá Tyrklandi settu starfsmenn KSÍ hins vegar það skilyrði fyrir viðtölum að Kolbeinn yrði ekki spurður út í þær fréttir að hann hefði verið handtekinn í Svíþjóð í lok síðasta mánaðar.

Fréttablaðið greindi frá því að Kolbeinn hefði verið handtekinn í kjölfar óláta á skemmtistað en frekari fréttir hafa ekki borist af málinu. Kolbeinn lék með AIK örfáum dögum eftir atvikið og skoraði þá í sigri liðsins í lokaumferð sænsku úrvalsdeildarinnar.

Fótbolti.net hefur það eftir heimildum sínum að AIK hafi skoðað málið vel og komist að þeirri niðurstöðu að ekki bæri að refsa Kolbeini þar sem að hann væri ekki talinn sökudólgur í málinu.

Erik Hamrén landsliðsþjálfari og Freyr Alexandersson aðstoðarlandsliðsþjálfari voru spurðir út í málið á blaðamannafundi síðasta föstudag en vildu hvorugur tjá sig. Hamrén sagði málið vera á milli Kolbeins og hans félagsliðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert