Þurfti að prófa eitthvað nýtt til að taka næsta skref

Arnór Borg Guðjohnsen á fleygiferð í leik með Fylki fyrr …
Arnór Borg Guðjohnsen á fleygiferð í leik með Fylki fyrr í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Knattspyrnumaðurinn Arnór Borg Guðjohnsen, nýjasti liðsmaður karlaliðs Víkings úr Reykjavík, segist hafa ákveðið að semja við liðið að vel ígrunduðu máli.

„Ég fékk langan tíma til þess að hugsa mig um hvert framhaldið myndi verða hjá mér. Ég var með áhuga frá Breiðabliki, FH og svo Víkingi. Ég er búinn að taka langan tíma í að hugsa málið og tala við þjálfarana. Á endanum ákvað ég að velja Víking.

Mér leist vel á þjálfarann, Arnar er náttúrlega geggjaður þjálfari. Svo finnst mér hópurinn bara rosalega flottur, þeir eru búnir að standa sig rosalega vel í sumar þannig að ég er bara spenntur að fá að taka þátt í þessu,“ sagði Arnór Borg í samtali við mbl.is þegar tilkynnt var um skipti hans frá Fylki í Víkinni í dag.

Hann sagði kominn tíma til þess að breyta til eftir tveggja ára dvöl hjá Fylki. Samingur hans við Árbæjarliðið rennur út eftir tímabilið og gerir Arnór Borg þriggja ára samning við Víking.

„Ég ákvað að ég þyrfti að fara og prófa eitthvað nýtt til að taka næsta skref áfram. Það var mitt persónulega álit og ég ætla bara að vona að það virki.“

Arnór Borg er meiddur eftir að hafa gengist undir aðgerð vegna tvöfalds kviðslits á dögunum. Þar sem endurhæfingin tekur um fjórar vikur hefur hann nú þegar spilað sinn síðasta leik fyrir Fylki. Hvernig tóku forráðamenn Fylkis tíðindunum?

„Ég tilkynnti þeim þetta í gær og þeir tóku ágætlega í þetta. Þeir sýndu mér bara mjög mikinn stuðning og ég er rosalega þakklátur fyrir tímann minn hjá Fylki og rosalega ánægður með það sem þeir hafa gert fyrir mig. Ég vona að þeir nái að halda sér uppi í deildinni svo þeir verði í henni á næsta ári,“ sagði Arnór Borg að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert