Þurfum ekki að breyta neinu

Finnur Orri horfir á eftir boltanum í baráttu við Ara …
Finnur Orri horfir á eftir boltanum í baráttu við Ara Sigurpálsson í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Finnur Orri Margeirsson leikmaður FH var skiljanlega svekktur eftir tap gegn Víkingi úr Reykjavík á útivelli í 6. umferð Bestu deildarinnar í fótbolta.

Urðu lokatölur 2:0 en Víkingur skoraði í blálok fyrri hálfleiks og svo aftur eftir að fyrirliðinn Nikolaj Hansen fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt.

„Ég hefði viljað meira út úr þessum leik miðað við frammistöðu og hvað við lögðum í hann. Þetta var þéttur leikur í fyrri hálfleik og ég hefði viljað fara með 0:0 stöðu í hálfleikinn.

Við nýttum svo ekki tækifærið þegar við erum manni fleiri nægilega vel. Við fáum svo á okkur mark úr föstu leikatriði. Við hefðum átt að halda þessu í einu marki til að gera þetta að alvöru séns.

Við höfum oft áður lent undir og við erum ekkert eðlilega góðir í að koma til baka. Ég hafði fulla trú á að við kæmum til baka í seinni hálfleik. Mér fannst við gera nóg til að fá meira út úr þessum leik.

Róðurinn verður erfiðari þegar við fáum á okkur seinna markið. Við fengum færi þegar við vorum manni fleiri og það vantaði bara að setja boltann í netið,“ sagði Finnur um leikinn við mbl.is.

FH er með 12 stig eftir sex leiki og missti af tækifæri til að fara upp í toppsætið í kvöld, en sigur hefði nægt til þess.

„Við erum búnir að gera vel hingað til en ég hefði viljað fá meira út úr þessum leik. Við erum að spila nokkuð vel og gerðum það í þessum leik. Við þurfum ekki að breyta neinu heldur halda áfram að gera það sem við erum að gera og þá sjá úrslitin um sig sjálf,“ sagði Finnur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert