Mjög kaflaskiptur leikur

KR-ingar fagna marki í dag.
KR-ingar fagna marki í dag. mbl.is/Eyþór Árnason

Aron Sigurðarson leikmaður KR átti fínan leik og setti mark úr víti þegar KR vann FH í 7. umferð Bestu deildar karla í fótbolta í dag. Aron var ánægður með leik KR þegar mbl.is tók hann tali strax eftir leik:

Hvernig lítur þessi leikur út í þínum huga?

„Þetta var mjög kaflaskiptur leikur. Við vorum talsvert betri í fyrri hálfleik og góðir á boltanum. Héldum boltanum vel. Förum verðskuldað með 2:0 forskot i hálfleikinn. FH kemur síðan sterkt inn í síðari hálfleikinn og setja mikla pressu á okkur. Þeir voru í við betri en við.

Plúsinn er samt hvað varnarleikurinn og baráttan var góð hjá okkur og bara hrós á okkur. Þetta er erfiður útivöllur og FH er mjög gott lið þannig að það er geggjað að fá þennan sigur sem við munum næra okkur vel á fyrir næsta leik."

Hefði jafntefli verið sanngjörn úrslit?

„Nei það finnst mér ekki. Við hefðum getað gert út um leikinn í síðari hálfleik þegar við fáum dauðafæri í stöðunni 2:1. Þannig að mér fannst þetta verðskuldað í dag."

Næsti leikur er gegn Vestra í Frostaskjóli. Hvað tekur KR með sér úr þessum leik og inn í leikinn gegn Vestra?

„Við ætlum að byggja ofan á þennan sigur og halda áfram að byggja upp ákefðina og hjartað sem við lögðum í þennan leik. Mér finnst leiðinlegt að sjá þegar menn halda að þeir séu betri en þeir eru.

Ef við förum inn í leiki með hálfum hug þá töpum við gegn hverju einasta liði í þessari deild. Sama hvort það sé á heimavelli eða útivelli þannig að við þurfum að leggja allt í leikinn gegn Vestra og þá trúi ég á góð úrslit þar."

Eitthvað sem þú hefðir viljað sjá KR gera betur gegn FH í dag?

„Kannski þá bara að halda betur í boltann í síðari hálfleik. Fyrri hálfleikur var mjög flottur. Síðan eru þeir bara með frábært lið og gerðu vel en okkur tókst að verjast því vel," sagði Aron í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert