Þegar mamma og pabbi eru ekki á vellinum

Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni í dag.
Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni í dag. mbl.is/Eyþór Árnason

„Ég er virkilega ánægður, það er eitthvað að ef þú ert ekki ánægður með 4:1-sigur á útivelli,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga eftir sigur liðsins gegn Vestra, 4:1, í 7. umferð Bestu deildar karla í Laugardalnum í dag.

Víkingur er í efsta sæti deildarinnar með 18 stig af 21 mögulegu. 

„Mjög fagmannlegt í dag, ef ég ætti að kvarta yfir einhverju þá hefðum við mátt sýna þeim minni miskunn og skora fleiri mörk. Við vorum komnir í margar álitlegar stöður til að gera betur úr þeim,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is.

Það vakti athygli fyrir leik þegar kom í ljós að lykilmaður Víkinga, Pablo Punyed, væri ekki í byrjunarliðinu.

„Hann getur ekki spilað alla leiki þó að hann sé sprækur og stundum þarftu að komast að því hvort menn geti staðið upp þegar pabbi og mamma eru ekki inn á vellinum til að hugsa um þig,“ sagði Arnar.

Svona er Íslandsmótið

Vestri jafnaði leikinn í fyrri hálfleik eftir að Silas Songani slapp í gegn. Víkingur lét það ekki hafa áhrif á sig og skoraði tvö mörk í kjölfarið fyrir hálfleik.

„Gott plan hjá Vestra, við erum með háa línu og við tökum séns í pressunni en þetta var samt dapur varnarleikur en að sama skapi mjög vel gert hjá Vestra. Við svöruðum því mjög vel og 3:1 í hálfleik var mjög gott forskot,“ sagði Arnar.

Næsti leikur Víkinga er á útivelli gegn ÍA.

„Þessir útileikir eru virkilega erfiðir. Það er það sem ég segi um þetta Íslandsmót, það er erfitt að vinna titilinn, þetta eru svo öfgakenndar aðstæður. Þú ert inni á móti HK, svo geturðu farið til Eyja í 18 vindstig og síðan ertu að mæta á lélegt gras á Akranesi eða jafnvel inn í höllinni þar sem er tveggja metra lofthæð. Þetta er akkúrat leikirnir sem titillið vinna, það eru leikirnir gegn þessum minni spámönnum.“ Sagði Arnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert