Fólk gleymir því oft

Róbert Frosti Þorkelsson sækir að vörn Breiðabliks.
Róbert Frosti Þorkelsson sækir að vörn Breiðabliks. mbl.is/Eyþór Árnason

„Mér finnst líka skemmtilegt að vinna svona,“ sagði Blikinn Oliver Sigurjónsson í samtali við mbl.is eftir sigur Breiðabliks á Stjörnunni, 2:1, í 7. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld. 

Með sigrinum er Breiðablik eitt í öðru sæti með 15 stig, þremur stigum frá toppliði Víkings R. 

Oliver sneri aftur eftir erfið meiðsli sem hafa haldið honum frá hingað til. Hann er vægast sagt sáttur að vera mættur aftur á völlinn. 

„Alveg geðveikt að vera kominn aftur. Ég er búinn að bíða alltof lengi eftir þessu og er ótrúlega glaður. Líka að fá sigur í endurkomunni er frábært. Þetta var mikil harka og við þurfum að vinna fyrir sigrinum sem mér finnst líka skemmtilegt,“ sagði Oliver. 

Varstu lengur frá en þú bjóst við?

„Ég meiddist aftur eftir að hafa byrjað. Við tókum enn lengri tíma til að koma mér í gang og þetta lítur allt saman vel út. Ég er að koma mér í gang og halda þessu gangandi.“

Ótrúlega gott baráttulið

Oliver segir vörnina hafa skilað sigrinum í kvöld. 

„Við byrjuðum seinni sem og fyrri hálfleik vel. Settum mjög gott fordæmi fyrir leikinn. Svo kemst maður yfir og þá oft fer maður aðeins aftur og tekur ekki jafn mikinn séns í að fara með menn fram. 

Við gáfum mjög fá færi á okkur að mínu mati. Aðeins undir lok fyrri hálfleiks sem þeir komast á lagið. 

Fólk gleymir því oft að við erum ótrúlega gott baráttulið. Við vinnum oft leiki sem eru fram og til baka. Það sem skilaði sigrinum var hversu sterkir við vorum varnarlega.“

Oliver Sigurjónsson, til vinstri, ásamt fyrirliðanum Höskuldi Gunnlaugssyni.
Oliver Sigurjónsson, til vinstri, ásamt fyrirliðanum Höskuldi Gunnlaugssyni. Eggert Jóhannesson

Langar að vera betri 

Oliver segir Breiðablik vera nokkuð sátt við byrjunina á tímabilinu. Liðið hefur unnið fimm leiki og tapað tveimur, gegn Víkingi og Val. 

„Jájá, þetta er allt í lagi. Auðvitað værum við til í að vera með fleiri stig og sérstaklega þessi Valsleikur sem særir. Við höfum átt upp og ofan leiki og Víkingsleikurinn var lélegur. 

Við eigum enn inni og miðað við það erum við nokkuð sáttir. Okkur langar að vera betri. Ef við verðum betri en í dag lítur þetta hrikalega vel út.“

Næsti leikur Breiðabliks er gegn Fram.  

„Þeir eru frábærir varnarlega og góðir að refsa. Það er alltaf erfitt að mæta svona liðum sem eru með mikið sjálfstraust. Við ætlum að líta í eigin barm. Það verður gaman að leysa þeirra pressu og hvernig þeir spila. Við verðum að taka framför í okkur leik þegar kemur að því. 

Ég held við séum betri í því en undanfarin ár. Vonandi komum við af krafti í þann leik, það er mikilvægt,“ bætti Oliver við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert