„Stangirnar taka örlögin í sínar hendur“

Guðmundur Magnússon með boltann í leiknum í kvöld.
Guðmundur Magnússon með boltann í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Þetta eru tvö hörkulið sem eru að þróa sig áfram. Bæði lið eru á góðri leið og eru með góða leikmenn innanborðs,“ sagði Guðmundur Magnússon, markaskorari Fram, eftir 1:1-jafntefli gegn ÍA í Bestu deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Hann kom Fram í forystu á 65. mínútu áður en Viktor Jónsson jafnaði metin fyrir ÍA á 76. mínútu. Með nokkrum ólíkindum var að mörkin væru ekki fleiri þar sem bæði lið fengu ógrynni góðra færa.

„Já, þetta gerist stundum í svona leikjum. Menn finna að það er mikið undir. Þeir hefðu getað komist upp fyrir okkur, við hefðum getað skilið þá aðeins eftir.

Taugarnar höfðu kannski eitthvað að segja, menn hefðu getað gert aðeins betur. En svo er ekkert við því að gera þegar stangirnar taka örlögin í sínar hendur,“ sagði Guðmundur í samtali við mbl.is eftir leik.

Getum barist ofarlega

Fram hefur byrjað vel á tímabilinu og telur hann stigið í kvöld vera hluta af þeirri vegferð sem liðið er á.

„Þetta er mögulega hluti af þessu en auðvitað viljum við taka öll stig á heimavelli. En svo lengi sem við erum ekki að tapa leikjunum erum við sáttir.

Mögulega hefðum við getað gert betur í kvöld en svona er þetta bara,“ sagði Guðmundur.

Framarar eru í fjórða sæti deildarinnar eftir jafnteflið í kvöld. Enginn vafi leikur á því að liðið vill berjast í efri hlutanum.

„Við getum klárlega barist ofarlega. Ég held að við höfum sýnt það að það sé rosalega erfitt að vinna okkur. Við munum halda þessu áfram og reyna að verða betri,“ sagði hann.

Finnum fyrir áhuganum

Mikill áhugi er á liði Fram í Úlfarsárdalnum og finnur Guðmundur fyrir miklum meðbyr hjá félaginu.

„Já, klárlega. Þetta er að verða betra og betra með hverju árinu og maður finnur fyrir áhuganum hjá fólkinu í hverfinu. Krakkarnir hérna eru að sýna þessu þvílíkan áhuga.

Við verðum að halda áfram að gefa til baka, láta alla koma hingað og styðja okkur áfram. Þetta hverfi hérna boðar gott,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert