Liðsandi kemur ekki af himnum ofan

Birkir Bjarnason, Gylfi Þór Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson fagna marki …
Birkir Bjarnason, Gylfi Þór Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson fagna marki Gylfa gegn Ungverjum. mbl.is/ Skapti Hallgrímsson

Einar Gylfi Jónsson sálfræðingur rýndi í liðsheild íslenska karlalandsliðsins í fótbolta í þættinum á Sprengisandi í morgun en liðið hefur góðu gengi fagnað á Evrópumeistaramótinu í knattspyrnu. Einar Gylfi velti meðal annars fyrir sér hvað veldur því að kapplið eins og fótboltalandsliðið okkar nær betri árangri en vænta mætti af samanlagðri getu leikmannanna.

Eitthvað tengir einstaklingana í hópnum saman að sögn Einars og það hversu tengdir einstaklingar eru í hópnum er grundvallarspurning. Liðsandi getur verið sjálfsprottinn við ákveðnar aðstæður, en í hópíþróttum er ekki svo, „hann kemur ekki af himnum ofan, hann þarf að skapa og vinna í,“ segir Einar. 

Stjórnarandstaða og félagslegir leiðtogar

Hinn félagslegi leiðtogi gegnir stóru hlutverki hvað varðar liðsheildina. Íslenska liðið stendur virkilega vel að vígi hvað þetta varðar að mati Einars. Þjálfararnir Lars Lag­er­bäck og Heimir Hallgrímsson séu mjög öflugir, fyrirliðinn Aron Einar mjög góður og reynsla og virðing Eiðs Smára skilar sínu til liðsheildarinnar hvað varðar hinn félagslega leiðtoga.

Stjórnarandstaða er annar þáttur sem fyrirfinnst í öllum hópum. Hún getur verið hljóðlát eða hávær, málefnaleg eða ómálefnaleg. Stjórnarandstaða sem er málefnaleg og sýnileg er til þess fallin að vera gagnleg og eykur gæði hópavinnunnar. Landsliðsmennirnir segja þá Lars og Heimi ávallt tilbúna að hlusta, þeir vilji alltaf vita hvað leikmönnum finnst en slíkt er mjög gagnlegt fyrir liðsheildina að sögn Einars.

Eiður Smári er félagslegur leiðtogi í íslenska landsliðinu.
Eiður Smári er félagslegur leiðtogi í íslenska landsliðinu. mbl.is/ Skapti Hallgrímsson

Spilar fyrir liðið en ekki liðið fyrir hann

Þá má snúa spurningunni við, hvernig stendur á því þegar lið sýnir ekki þá frammistöðu sem við má búast af þeim einstaklingum sem liðið skipa? Hvernig virkar það þegar liðið spilar fyrir eina til tvær stjörnur liðsins? Slíkt er stundum tilfellið en það er ekki til þess fallið að skila árangri eða stuðla að góðri liðsheild.

Það er ekki tilfelli íslenska landsliðsins að mati Einars þar sem stjörnurnar spila fyrir liðið en ekki öfugt. Munurinn til dæmis á Gylfa Sigurðssyni, sem jafnan er talin skærasta stjarna íslenska liðsins, og öðrum fótboltastjörnum, er sá að hann spilar alltaf fyrir liðið en ekki liðið fyrir hann. „Það kemur meira út úr hópi þar sem einstaklingarnir spila fyrir liðið,“ segir Einar.

Það er ekki hægt að búa til sterkan hóp úr hvaða einstaklingum sem er að sögn Einars, en í tilfelli landsliðsins var ákveðinn kjarni fyrir hendi sem þeir Lars og Heimir hafa síðan byggt á og unnið með jákvæð og lausnamiðuð viðhorf að leiðarljósi.

Um möguleika íslenska liðsins gegn Englandi á morgun segir Einar að á góðum degi hjá Englendingum ættu þeir að vinna okkur, en það getur allt gerst. Liðsheild íslenska liðsins getur dugað til. „Óskhyggja mín segir mér að við munum vinna þetta 2-1 í venjulegum leiktíma,“ segir Einar Gylfi.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 26. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 26. APRÍL

Útsláttarkeppnin