Allt undir hjá Svíum – Karabatic jafnar met

Simon Jeppson og félagar hjá Svíþjóð leika gríðarlega mikilvægan leik …
Simon Jeppson og félagar hjá Svíþjóð leika gríðarlega mikilvægan leik í dag á meðan Nikola Karabatic nær sögulegum áfanga með Frökkum. AFP

Sænska karlalandsliðið í handknattleik, undir stjórn Kristjáns Andréssonar, leikur gríðarlega mikilvægan leik á Evrópumótinu í Króatíu í kvöld sem gæti ráðið úrslitum um framtíð liðsins á mótinu.

Svíar mæta þá Hvíta-Rússlandi í milliriðli í Zagreb og verða að vinna ef þeir ætla sér sæti í undanúrslitum mótsins. Svíar töpuðu fyrir Frökkum á laugardag, 23:17, á meðan Króatar unnu Noreg 32:28.

Frakkar og Króatar eru því í efstu sætunum með 6 stig en Svíar eru með fjögur stig með leikinn í kvöld til góða. Efstu tvö sætin fara í undanúrslit, en Svíar eiga einnig eftir að mæta Noregi í lokaleik sínum í milliriðli á meðan Frakkar og Króatar mætast í lokaleiknum.

Frakkar eru með fullt hús stiga en eiga einnig leik til góða gegn Serbíu í kvöld og getur með sigri stigið stórt skref í átt að undanúrslitum. Nikola Karabatic, ein stærsta stjarna Frakka, nær stórum áfanga í leiknum þegar hann spilar sinn 57. leik í lokakeppni EM. Hann jafnar þar með met Didier Dinart, sem nú er landsliðsþjálfari Frakka, sem var áður leikjahæsti leikmaðurinn í sögu EM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert