Góðar fréttir fyrir marga United-menn?

Tom Cleverley í leik með United gegn City.
Tom Cleverley í leik með United gegn City. AFP

Tom Cleverley er ekki í uppáhaldi hjá mörgum stuðningsmönnum Manchester United en hugsanlega geta þeir tekið gleði sína því miðjumaðurinn gæti verið á leiðinni til Everton í sumar.

Enskir fjölmiðlar greina frá því í kvöld að Roberto Martinez knattspyrnustjóri Everton sé með Cleverley í sigtinu og sé reiðubúinn að punga út 8 milljónum punda fyrir leikmanninn.

Martinez þekkir ágætlega til Cleverley en hann fékk leikmanninn að láni til sín þegar hann var við stjórnvölinn hjá Wigan. Spánverjinn er mikill aðdáandi Cleverley en samningur miðjumannsins við Manchester United rennur út á næsta ári.

Cleverley hefur mátt þola mikla gagnrýni, ekki bara hjá United heldur hófu nokkrir stuðningsmenn enska landsliðsins undirskriftarsöfnun þar sem þeir kröfðust þess að leikmaðurinn væri settur út úr enska landsliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert