Foster samdi aftur við WBA

Ben Foster grípur boltann í leik Englands og Kostaríka á …
Ben Foster grípur boltann í leik Englands og Kostaríka á HM í Brasilíu. AFP

Ben Foster, enski landsliðsmarkvörðurinn í knattspyrnu, hefur skrifað undir nýjan samning til fjögurra ára við West Bromwich Albion.

Foster, sem er 31 árs gamall, hefur varið mark WBA undanfarin þrjú keppnistímabil en hann kom þangað frá Birmingham. Upphaflega var hann í röðum Stoke City, þegar Guðjón Þórðarson var þar knattspyrnustjóri og eigendurnir voru íslenskir. Hann spilaði þó aldrei deildaleik fyrir Stoke þrátt fyrir að vera þar í fjögur ár en var lánaður til liða í neðri deildum, og var síðan seldur til Manchester United árið 2005.

Þar lék Foster aðeins 12 deildaleiki á fimm árum en var lánaður til Watford í tvö ár. Foster lék sinn fyrsta landsleik fyrir Englands hönd árið 2007 og var í enska landsliðshópnum á HM í Brasilíu í sumar. Þá spilaði hann lokaleikinn, gegn Kostaríku, sem var hans áttundi landsleikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert