Öll góð lið þurfa frábæra leikmenn

Leikmenn Manchester City fagna Sergio Agüero eftir að hann skoraði …
Leikmenn Manchester City fagna Sergio Agüero eftir að hann skoraði sigurmarkið í kvöld. AFP

Manuel Pellegrini knattspyrnustjóri Manchester City hældi að vonum Sergio Agüero á hvert reipi eftir sigurinn á Bayern München, 3:2, í Meistaradeild Evrópu í kvöld en Argentínumaðurinn skoraði öll mörk City og tvö þeirra á lokakafla leiksins.

Þar með er City komið í aðra og betri stöðu fyrir lokaumferð E-riðilsins en City, CSKA og Roma eru með 5 stig hvert. Roma og City mætast á Ítalíu en CSKA sækir Bayern heim.

„Öll góð lið þurfa á frábærum leikmönnum að halda og Sergio Agüero er frábær leikmaður og okkur geysilega dýrmætur. Allt liðið hélt áfram af fullum krafti til leiksloka, við fengum á okkur tvo ótrúleg mörk en allt okkar lið hélt einbeitingu til síðustu mínút. Ég missti aldrei trúna á að við gætum þetta," sagði Pellegrini en útlitið var dökkt skömmu fyrir leikslok þegar staðan var 1:2.

Um möguleikana á að komast áfram sagði Pellegrini að margt væri í stöðunni fyrir lokaumferðina. „Við erum bjartsýnir en þetta er ekki algjörlega í okkar höndum. Við verðum að komast í sem besta stöðu í lokaumferðinni og eina leiðin til þess er að vinna Roma," sagði Sílebúinn.

CSKA myndi tryggja sér annað sætið með því að vinna Bayern og þá myndi City ekki nægja að vinna Roma. Að öðrum kosti kemst City áfram, þ.e. ef liðið vinnur og CSKA vinnur ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert