Fleetwood skellti Getafe

Eggert Gunnþór Jónsson og Graham Alexander þjálfari liðsins.
Eggert Gunnþór Jónsson og Graham Alexander þjálfari liðsins. Ljósmynd/Fleetwood Town.

Eggert Gunnþór Jónsson og samherjar í enska C-deildarliðinu Fleetwood Town unnu í kvöld óvæntan sigur á spænska liðinu Getafe, 2:0, þegar liðin mættust í æfingaleik á Highbury, heimavelli Fleetwood.

Fyrirliðinn Antoni Sarcevic skoraði bæði mörk Fleetwood og Eggert lék nær allan leikinn á miðjunni hjá liðinu en var skipt af velli rétt fyrir leikslok.

Lið Fleetwood, með Grétar Rafn Steinsson sem yfirmann knattspyrnumála, ætlar sér stóra hluti í vetur og í sumar hefur það spilað æfingaleiki gegn liðum á borð við Borussia Dortmund og Alemanna Aachen í Þýskalandi, Kilmarnock í Skotlandi og nú Getafe, sem hefur leikið í efstu deild á Spáni undanfarin ár.

Keppni í ensku C-deildinni hefst um næstu helgi og Fleetwood á þá heimaleik gegn Southend. Eggert kom til félagsins í sumar eftir að hafa leikið með Vestsjælland í dönsku úrvalsdeildinni seinni hluta síðasta tímabils.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert