Everton eyddi of miklum tíma í Gylfa

Gylfi Þór Sigurðsson og Wayne Rooney hafa engan eiginlegan framherja …
Gylfi Þór Sigurðsson og Wayne Rooney hafa engan eiginlegan framherja til þess að mata með fyrirgjöfum sínum. AFP

Þrátt fyrir mikla bjartsýni í herbúðum Everton fyrir nýtt tímabil í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hefur flestallt gengið á afturfótunum hjá liðinu í deildinni það sem af er. Liðið er í fallsæti eftir fimm leiki og aðeins skorað tvö mörk og er það einmitt stærsta vandamálið samkvæmt umfjöllun BBC um liðið.

Salan á helsta framherjanum Romelu Lukaku til Manchester United skildi eftir pening til þess að finna arftaka hans, en það gekk ekki.

„Að fá ekki framherja í staðinn hefur haft áhrif á allt saman. Everton setti félagsmet með því að kaupa Gylfa Þór Sigurðsson frá Swansea á 45 milljónir punda og sendi það sterk skilaboð. En Everton eyddi of miklum tíma í að ná í Gylfa og hætti að hugsa um að kaupa framherja á meðan,“ segir í umfjöllun BBC.

Afleiðingar þess eru þær að Gylfa, sem er lýst sem frábærum sókndjörfum miðjumanni, er oft spilað út úr stöðu og notaður á kantinum. Endurkoma Waynes Rooneys hefur snúist upp í það að hann þurfi að leiða framlínuna og næstu mánuði mun Everton vera í miklum vandræðum,“ segir í grein BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert