Eigendur West Ham mjög áhyggjufullir

Slaven Bilic.
Slaven Bilic. AFP

Eigendur West Ham munu ræða framtíð króatíska knattspyrnustjórans Slaven Bilic hjá félaginu en staða hans er afar slæm eftir 3:0-tap liðsins gegn Brighton á heimavelli hamranna í gær í Lundúnum.

Eigendurnir, David Sullivan og David Gold, eru þekktir fyrir að standa með knattspyrnustjórum sínum en eru sagðir samkvæmt heimildum Sky Sports vera mjög áhyggjufullir með gang mála eftir tapið í gær.

Samningur Bilic rennur út undir lok þessarar leiktíðar en Sullivan lét hafa það eftir sér að það væri „siðferðislega rangt“ að reka knattspyrnustjóra og vildi veita honum tækifæri á að klára samning sinn.

Eftir tapið í gær sagði Bilic það vera „mjög erfitt fyrir mig að segja eitthvað snjallt núna fyrir utan það að um mikil vonbrigði er að ræða. Ég tek sem knattspyrnustjóri fulla ábyrgð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert