„Það er lygi“

Mohamed Salah.
Mohamed Salah. AFP

Þeir eru margir sem skilja ekkert í þeirri ákvörðun þegar Chelsea ákvað að selja Egyptann Mohamed Salah til Roma fyrir tveimur árum.

Skuldinni var skellt á José Mourinho sem þá var við stjórnvölinn hjá Chelsea. Mourinho hefur nú í fyrsta skipti tjáð sig um málið og hann kennir forráðamönnum Chelsea um að hafa látið Salah fara en Egyptinn er nú er liðsmaður Liverpool og hefur farið gjörsamlega á kostum á þessu tímabili.

Mourinho ákvað að kaupa Salah frá svissneska liðinu Basel árið 2014. Salah náði ekki að brjóta sér leið í lið Chelsea og var lánaður til ítalska liðsins Fiorentina og var svo seldur til Roma árið 2016.

„Fólk segir að það hafi verið ég sem seldi Salah en það er hið gagnstæða. Ég keypti Salah. Ég var sá sem ráðlagði Chelsea að kaupa Salah og hann kom til Chelsea undir minni stjórn. Hann var ungur að árum þegar hann kom og líkamlega var ekki hann ekki tilbúinn og heldur ekki andlega. Við ákváðum að lána hann og hann bað líka um það. Hann vildi fá að spila meira og hjá Fiorentina byrjaði hann að þroskast,“ sagði Mourinho í samtali við ESPN.

„Chelsea ákvað að selja hann og þegar félagið segir að það hafi verið ég sem seldi hann þá er það lygi. Ég keypti hann og samþykkti að lána hann. Ég taldi það nauðsynlegt. Ég seldi ekki Salah en það er ekki það skiptir máli núna. Það sem skiptir máli er að hann er frábær leikmaður og ég er mjög ánægður með allt sem er að gerast hjá honum og sérstaklega vegna þess að hann skorar á móti öllum liðum en ekki á móti okkur í tveimur leikjum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert