Alltaf sérstakur leikur fyrir mig

Juan Mata.
Juan Mata. AFP

Stórleikur 9. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar um komandi helgi verður viðureign Chelsea og Manchester United en liðin eigast við í hádeginu á laugardaginn.

Chelsea hefur verið á góðu róli í upphafi tímabilsins. Liðið er taplaust og deilir toppsæti deildarinnar með Manchester City og Liverpool en öll hafa liðin 20 stig. Sömu sögu er ekki að segja um Manchester United. Vandræðagangur hefur verið á liði United innan sem utan vallar og situr það í áttunda sætinu með 13 stig.

„Þetta er alltaf sérstakur leikur fyrir mig. Þetta verður erfiður leikur því Chelsea hefur gert það gott,“ segir Juan Mata leikmaður United á vef félagsins en Mata kom til Manchester United frá Chelsea fyrir fjórum árum.

„Chelsea er með nýjan stjóra. Liðið er lítið breytt en spilar annan leikstíl undir hans stjórn. Það er með leikmenn eins og Hazard, Willian, Pedro, Fábregas og fékk Jorginho sem hefur passað fullkomlega inn í leikstíl Sarri,“ segir Mata.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert