Pochettino rekinn frá Tottenham

Mauricio Pochettino er atvinnulaus.
Mauricio Pochettino er atvinnulaus. AFP

Enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham rak rétt í þessu knattspyrnustjórann Mauricio Pochettino, tæpu hálfu ári eftir að hann fór með liðið í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. 

Pochettino tók við Tottenham af Tim Sherwood árið 2014 og hefur náð góðum árangri með liðið, þrátt fyrir takmarkað fjármagn til leikmannakaupa. Hápunkturinn var úrslitaleikur Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð. Þar þurfti liðið að sætta sig við 0:2-tap fyrir Liverpool. 

Liðið hefur hins vegar valdið vonbrigðum á leiktíðinni og er sem stendur í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 12 leiki með aðeins 14 stig og þrjá sigra. Þá féll liðið úr leik í enska deildabikarnum eftir gríðarlega óvænt tap fyrir Colchester úr D-deildinni. 

Var Pochettino orðaður við Manchester United og Real Madríd í sumar og gerðu forráðamenn Tottenham hvað þeir gátu til að sannfæra Argentínumanninn til að vera áfram hjá félaginu. Pochettino skrifaði undir fimm ára samning við Tottenham fyrir rúmu ári síðan. 

Pochettino hóf stjóraferilinn hjá Espanyol árið 2009 og vakti athygli fyrir góðan árangur. Tók hann við Southampton 2013 og ári síðar var hann orðinn stjóri Tottenham. 

Argentínumaðurinn stýrði Tottenham í 202 deildarleikjum og vann liðið 113 þeirra, gerði 43 jafntefli og tapaði 46. Besti árangur liðsins í ensku úrvalsdeildinni undir hans stjórn kom árið 2017 er það endaði í öðru sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert