Arteta ánægður með strákana

Mikel Arteta þakkar sínum mönnum í leikslok.
Mikel Arteta þakkar sínum mönnum í leikslok. AFP

Mikel Arteta knattspyrnustjóri Arsenal var afar ánægður með frammistöðu sinna manna og sérstaklega ungu leikmannanna í liðinu þegar þeir sigruðu Bournemouth 2:1 á útivelli í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar í gærkvöld.

„Ég er mjög ánægður. Ég vissi að þetta yrði erfiður leikur og við stilltum upp mjög ungu liði. Ég vildi sjá hvernig þeir myndu bregðast við og var mjög sáttur því ég sá margt virkilega gott. Strákarnir voru ekki smeykir við að taka áhættu og ákvarðanir, voru gríðarlega vinnusamir og hugrakkir,“ sagði Arteta.

Tveir af ungu mönnunum, Bukayo Saka og Eddie Nketiah, skoruðu mörkin í fyrri hálfleiknum. Aðaláhyggjuefni Arteta var hvort meiðslin hjá miðverðinum Shkodran Mustafi væru alvarleg en hann lenti illa á ökkla eftir árekstur við markvörð sinn, Emiliano Martinez, í seinni hálfleiknum. Mustafi fer í nánari skoðun í dag.

Arsenal sækir C-deildarlið Portsmouth heim í sextán liða úrslitum keppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert