„Vona að sonur þinn fái kórónuveiruna“

Troy Deeney hefur fengið mikið af ljótum skilaboðum eftir að …
Troy Deeney hefur fengið mikið af ljótum skilaboðum eftir að hann neitaði að mæta aftur til æfinga. AFP

Troy Deeney, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Watford, hefur fengið mikið af ógeðfelldum skilaboðum eftir að hann sagðist ekki ætla að mæta aftur til æfinga vegna kórónuveirunnar í samtali við Sky Sports í síðustu viku. Deeney á fimm mánaða gamlan son sem hefur glímt við öndunarerfiðleika og er það ein af ástæðum þess að Deeney hefur ekki viljað mæta á æfingar.

„Í dag er mikið rætt um andlega heilsu og að fólk eigi ekki að byrgja hlutina inni heldur tala opinskátt um það sem því liggur á hjarta,“ sagði Deeney í samtali við Mirror. „Við töluðum opinskátt um okkar líðan og við vorum gjörsamlega jarðaðir fyrir það. Þegar aðrir leikmenn sjá meðferðina sem við fáum þá fara þeir inn í sig og neita að tjá sig.

Danny Rose hefur fengið mikið af ógeðfelldum skilaboðum og ég líka. Þá hefur konan mín einnig fengið ljót skilaboð, meira að segja þegar við göngum saman niður götur borgarinnar. Það er öskrað á hana að ég eigi að drulla mér aftur í vinnuna eins og annað fólk og ég segist ekki vera að neyða neinn í vinnuna.

Ég kippi mér ekki upp við svona hluti en ég hef líka séð skilaboð þar sem fólk vonast til þess að sonur minn fái kórónuveiruna og það tekur á mig. Þetta er ekkert ósvipað og rasismi finnst mér og þeir sem eru á móti svoleiðis tali. Hversu margir þora að stíga fram og segja eitthvað, ekki margir,“ bætti Deeney við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert