Ótrúleg sigurganga Palace heldur áfram

Jean-Philippe Mateta skoraði sitt níunda mark í tíu leikjum í …
Jean-Philippe Mateta skoraði sitt níunda mark í tíu leikjum í dag. AFP/Ben Stansall

Crystal Palace vann sinn fimmta sigur í sex leikjum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla þegar liðið gerði góða ferð til Wolverhampton og lagði Úlfana, 3:1, í næstsíðustu umferð deildarinnar í dag.

Palace er komið upp í 12. sæti þar sem liðið er með 46 stig, jafnmörg og Úlfarnir í sætinu fyrir neðan.

Michael Olise og Jean-Philippe Mateta skoruðu fyrir Palace í fyrri hálfleik áður en Matheus Cunha minnkaði muninn fyrir Úlfana um miðjan síðari hálfleik.

Eberechi Eze innsiglaði svo sigur Palace með þriðja marki gestanna á 73. mínútu.

Allir markaskorarar Palace eru sjóðheitir um þessar mundir en Mateta hefur skorað níu mörk í síðustu tíu leikjum, Olise fjögur mörk í síðustu fimm leikjum og Eze þrjú mörk í síðustu fimm leikjum.

Newcastle varð af mikilvægum stigum

Newcastle United tapaði stigum í baráttunni um Evrópusæti með því að gera jafntefli við Brighton & Hove Albion, 1:1, á heimavelli.

Newcastle er áfram í sjötta sæti með 57 stig, þremur stigum fyrir ofan Chelsea og Manchester United í sætunum fyrir neðan þegar þau eiga bæði einn leik til góða.

Brighton siglir lygnan sjó í 10. sæti með 48 stig.

Í dag náði Brighton forystunni á 18. mínútu þegar Joel Veltman skoraði. Skömmu fyrir leikhlé jafnaði Sean Longstaff metin fyrir heimamenn og þar við sat.

Dramatík í Bournemouth

Loks hafði Brentford betur gegn Bournemouth, 2:1, á útivelli þar sem öll mörkin komu undir lokin.

Brentford er í 16. sæti með 39 stig og Bournemouth í 11. sæti með 48 stig.

Bryan Mbeumo braut loks ísinn fyrir Brentford þremur mínútum fyrir leikslok áður en Dominic Solanke jafnaði metin á 90. mínútu.

Yoane Wissa skoraði svo sigurmark Brentford á fimmtu mínútu uppbótartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert