Leeds á Wembley eftir stórsigur

Ilia Gruev fagnar fyrsta marki leiksins.
Ilia Gruev fagnar fyrsta marki leiksins. Ljósmynd/Leeds United

Leeds United er einum sigri frá því að fara upp í ensku úrvalsdeildina í fótbolta en liðið vann stórsigur á Norwich, 4:0, í seinni leik liðanna í undanúrslitum umspils B-deildarinnar í kvöld.

Fyrri leikurinn endaði 0:0 í Norwich og vann Leeds einvígið því 4:0 og mætir Southampton eða West Brom í úrslitaleik á Wembley.

Leeds byrjaði af miklum krafti og Ilia Gruev skoraði fyrsta markið strax á 7. mínútu með skoti úr aukaspyrnu af 30 metra færi eða svo. Bjuggust flestir leikmenn Norwich við fyrirgjöf en búlgarski miðjumaðurinn skaut óvænt og skoraði fyrsta mark leiksins.

Hollenski framherjinn Joel Piroe bætti við öðru markinu á 40. mínútu með skalla af stuttu færi eftir glæsilega fyrirgjöf Wilfried Gnonto. Frakkinn Georginio Rutter sá um að gera þriðja mark Leeds á 40. mínútu er hann negldi boltanum í slána og inn í teignum og var staðan í leikhléi 3:0.

Þannig var hún fram að 68. mínútu þegar Hollendingurinn Crysencio Summerville gerði fjórða markið eftir sendingu frá Junior Firpo og þar við sat.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert