BMW vonast til að halda dampi

Heidfeld (t.v.) og Kubica við 2007-bílinn við frumsýninguna.
Heidfeld (t.v.) og Kubica við 2007-bílinn við frumsýninguna. ap

BMW-liðið vonast til að halda sama dampi á komandi keppnistíð formúlunnar og á hinu fyrsta í sögu liðsins í fyrra. Kom það fram er liðið afhjúpaði keppnisbíl sinn í Valencia á Spáni í dag.

BMW kom einna mest á óvart í keppninni í fyrra og varð í fimmta sæti af 11 liðum í keppni bílsmiða. Hlaut það 36 stig og komst Robert Kubica alla leið á verðlaunapall í ítalska kappakstrinum.

„Þetta er ekki bara ein frumsýningin enn, eða annar bíll, heldur sá fyrstu sem nýja liðið þróar. Þetta er í raun fyrsti BMW-bíllinn. Þetta er mjög sérstakur dagur fyrir okkur,“ sagði liðsstjórinn Mario Thiessen við frumsýninguna.

Með því skírskotaði hann til kaupa þýska bílafyrirtækisins á Sauberliðinu fyrir rösku ári, en þegar kaupin áttu sér stað var þróun 2006-bílsins hjá Sauber langt á veg komin.

Theissen sagði að þegar BMW-liðið kom til skjalanna hafi því verið sett það markmið að vinna stig á fyrstu vertíð (2006), pallsæti á þeirri næstu (2007) og síðan mótssigra. „Við höldum okkur við þessi markmið,“ sagði hann þótt tvö þau fyrstu hefðu náðst á fyrsta ári.

Hann sagði að uppbyggingu liðsins væri ekki lokið. Frá kaupunum á Sauber hefði starfsmönnum fjölgað úr 275 í 400 en gert væri ráð fyrir að þeir yrðu 430 þegar uppbyggingunni væri lokið. Þá væri verið að skoða möguleika á byggingu nýrrar verksmiðju yfir starfsemina.

Theissen segir að erfitt verði fyrir BMW að komast í hóp fjögurra bestu liða formúlunnar. Þau hafi unnið um 50 stigum fleira en hans lið í fyrra. Bilið væri stórt en markmiðið væri að brúa það jafnt og þétt.

Hulunni svipt af BMW-bílnum í Valencia í dag.
Hulunni svipt af BMW-bílnum í Valencia í dag. ap
BMW-bílnum frumekið í dag; Heidfeld leggur af stað úr bílskúrnum …
BMW-bílnum frumekið í dag; Heidfeld leggur af stað úr bílskúrnum í Valencia. ap
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert