Ísland sigraði Frakkland 1:0

Ásthildur Helgadóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir sækja að marki Frakka.
Ásthildur Helgadóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir sækja að marki Frakka. Morgunblaðið/Árni Torfason

Ísland vann frækinn sigur á Frakklandi, 1:0, í Evrópukeppni landsliða á Laugardalsvellinum. Sigurmark Íslands var sjálfsmark á 81. mínútu eftir að markvörðurinn varði skalla frá Margréti Láru Viðarsdóttur en fékk boltann aftur í sig og þaðan í netið. Glæsileg og óvænt úrslit sem koma Íslandi í góða stöðu með 6 stig eftir tvo leiki.

Fylgst var með gangi máli í beinni textalýsingu á mbl.is og fer lýsingin hér á eftir.

90. Þóra ver á glæsilegan hátt frá Bussaglia sem fékk gott skotfæri í vítateignum.

88. Dóra María Lárusdóttir kemst inní sendingu á miðjum vallarhelmingi Frakka, leikur á varnarmann og þrumar á markið en boltinn strýkst við þverslána.

84. Frakkar sækja af krafti og hafa átt tvö skot eftir markið en bæði framhjá. Frönsku leikmennirnir hafa átt 22 markskot gegn 6 skotum Íslands.

81. 1:0. Dóra María Lárusdóttir kemst að endamörkum hægra megin og sendir fyrir markið, Margrét Lára skallar, markvörðurinn ver glæsilega en boltinn fer af varnarmanni í netið.

77. Margrét Lára reynir skot úr aukaspyrnu af 35 m færi en yfir mark Frakkanna.

75. Laetitia Tonazzi kemur inná fyrir Gateane Thiney.

74. Elodie Thomas kemst innfyrir vörn Íslands hægra megin eftir snöggtekna aukaspyrnu, ein á móti Þóru, sem lokar vel á hana og Thomas skýtur yfir markið.

73. Sandrine Soubeyrand fyrirliði Frakka með skot frá vítateig eftir nokkra pressu en beint á Þóru.

70. Hólmfríður Magnúsdóttir kemur inná fyrir Gretu Mjöll Samúelsdóttur.

69. Ásthildur leikur upp völlinn, framhjá tveimur varnarmönnum og rennir á Margréti Láru sem er á vítateigslínu og skýtur þaðan en beint á markvörðinn.

66. Snögg sókn Íslands og Ásthildur Helgadóttir reynir skot með vinstri færi af 20 metra færi en beint á Bouhaddi markvörð.

66. Hætta í vítateig Frakka eftir aukaspyrnu Ástu Árnadóttur frá miðlínu en Bouhaddi markvörður kastar sér fram og grípur vel inní.

62. Dóra María Lárusdóttir kemur inná fyrir Erlu Steinu Arnardóttur.

61. Elodie Thomas reynir hjólhestaspyrnu eftir fyrirgjöf frá hægri en Þóra ver af öryggi.

60. Camille Abily kemst framhjá varnarmönnum við vítapunkt og nær föstu skoti í markhornið niðri, vinstra megin, en Þóra ver glæsilega í horn.

57. Elise Bussaglia kemst inní vítateiginn vinstra megin og á hörkuskot sem Þóra ver vel í horn.

53. Margrét Lára reynir markskot af 40 metra færi, það er fast en beint á franska markvörðinn Sarah Bouhaddi.

50. Þóra B. Helgadóttir með aukaspyrnu rétt utan eigin vítateigs og sendir innfyrir vörn Frakka á Gretu Mjöll Samúelsdóttur. Nú er meðvindurinnn hinsvegar óhagstæður og Greta nær ekki valdi á boltanum sem fer afturfyrir endamörk.

Íslenska liðið náði að standa af sér mjög þunga pressu Frakka fyrstu fimm mínútur leiksins.

48. Camille Abily fær sendingu inní vítateig Íslands hægra megin, snýr sér til vinstri og á gott skot, rétt yfir markvinkilinn fjær.

46. Frakkar gerðu breytingu á sínu liði í hálfleik. Elodie Thomas kom inná fyrir Louisa Necib.

45. Flautað til hálfleiks, staðan er 0:0. Frakkar réðu ferðinni að mestu í fyrri hálfleik en íslenska liðið barðist af krafti og hleypti þeim ekki í nein teljandi opin færi. Frakkar reyndu mikið af skotum og áttu 12 skot að marki Íslands í fyrri hálfleik en aðeins þrjú þeirra hittu á markið og Þóra B. Helgadóttir varði þau án vandræða. Ísland átti nokkrar ágætar sóknir en náði aðeins einu markskoti, sem var varið. Hornspyrnur liðanna voru þó jafnmargar í hálfleiknum, tvær á hvort lið. Íslenska liðið lék á móti nokkrum strekkingsvindi í fyrri hálfleiknum.

42. Elise Bussaglia með skot rétt utan vítateigs vinstra megin en rétt framhjá stönginni hægra megin.

34. Margrét Lára í góðu færi eftir sendingu frá Ásthildi Helgadóttur. Skot Margétar var laust og átti franski markvörðurinn ekki í erfiðleikum með að verja skotið.

30. Frakkar fá dauðafæri eftir skyndisókn en franski sóknarmaðurinn Elise Bussaglia skýtur yfir markið rétt utan markeigs. Besta marktækifæri leiksins.

22. Frakkar komast í ágæta sókn sem endar með kollspyrnu en Þóra B. Helgadóttir er vel á verði og ver örugglega. Frakkar eru örlítið að herða tökin í leiknum.

Tuttugu mínútur eru liðnar af leiknum og leikurinn í algjöru jafnvægi. Engin marktækifæri hafa litið dagsins ljós enn sem komið er.

10. Íslendingar eiga fyrstu hornspyrnu leiksins en lítil hætta skapast upp úr henni.

Liðin eru að þreifa fyrir sér fyrstu mínúturnar. Aðstæður eru ágætar á Laugardalsvellinum. Það er skýjað, þurrt og 12 stiga hiti en nokkuð sterk gola og leikur íslenska liðið gegn henni í fyrri hálfleik.

Lið Íslands (4-4-1-1): Þóra B. Helgadóttir - Sif Atladóttir, Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, Katrín Jónsdóttir, Ásta Árnadóttir - Erla Steina Arnardóttir, Edda Garðardóttir, Dóra Stefánsdóttir, Greta Mjöll Samúelsdóttir - Margrét Lára Viðarsdóttir - Ásthildur Helgadóttir.
Varamenn: Guðbjörg Gunnarsdóttir, Dóra María Lárusdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir, Ólína G. Viðarsdóttir, Katrín Ómarsdóttir, Guðný B. Óðinsdóttir, Guðný P. Þórðardóttir.

Lið Frakklands (4-3-3): Sarah Bouhaddi - Corine Franco, Sadrine Dusang, Ophelie Meilleroux, Sonia Bompastor - Gaetane Thiney, Sandrine Soubeyrand, Louisa Necib - Elise Bussaglia, Hoda Lattaf, Camille Abily.
Varamenn: Céline Deville, Sabrina Viguier, Sandrine Bretigny, Laetitia Tonazzi, Elodie Thomas, Laure Bolulleau, Laure Lepailleur.

Margrét Lára Viðarsdóttir með tvo franska varnarmenn á hælunum.
Margrét Lára Viðarsdóttir með tvo franska varnarmenn á hælunum. Morgunblaðið/Árni Torfason
Ásthildur Helgadóttir fyrirliði Íslands á fleygiferð í leiknum í dag.
Ásthildur Helgadóttir fyrirliði Íslands á fleygiferð í leiknum í dag. Morgunblaðið/Árni Torfason
Íslensku leikmennirnir hlýða á þjóðsönginn fyrir leik.l
Íslensku leikmennirnir hlýða á þjóðsönginn fyrir leik.l Morgunblaðið/Árni Torfason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert