Annað tapið í röð hjá lærisveinum Ólafs

Ólafur H. Kristjánsson, þjálfari Randers.
Ólafur H. Kristjánsson, þjálfari Randers. mbl.is/Ómar Óskarsson

Strákarnir hans Ólafs Helga Kristjánssonar í danska liðinu Randers máttu sætta sig við annað tapið í röð í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Randers sótti meistarana í FC København heim á Parken í Kaupmannahöfn og tapaði leiknum, 1:0. Hannes Halldórsson varði mark Randers en tókst ekki að koma í veg fyrir mark frá Rasmus Falk á 13. mínútu sem reyndist vera sigurmark leiksins.

FC København hefur nú spilað 22 leiki í röð á heimavelli án taps en liðið trónir á toppi deildarinnar, hefur 12 stiga forskot á Brøndby. Randers er í fjórða sæti deildarinnar, 18 stigum á eftir meisturunum.

Kjartan Henry Finnbogason og félagar í Horsens töpuðu 1:2 fyrir Viborg á heimavelli. Kjartan lék síðasta hálftímann. Horsens er í 8. sæti af fjórtán liðum með 24 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert