Messi náði Eusebio

Lionel Messi fagnar marki.
Lionel Messi fagnar marki. AFP

Lionel Messi náði enn einum áfanganum í gærkvöld þegar hann skoraði fyrsta mark Barcelona í 4:0 sigri liðsins á Borussia Mönchengladbach í Meistaradeild Evrópu á Camp Nou í Barcelona.

Argentínumaðurinn skoraði þar sitt 473. mark fyrir Barcelona á ferlinum og jafnaði með því portúgölsku goðsögnina Eusebio í 4.-5. sæti yfir þá knattspyrnumenn sem hafa skorað flest mörk fyrir eitt félag í sögunni.

Þjóðverjinn Gerd Müller á heimsmetið en hann skoraði 525 mörk fyrir Bayern München frá 1964 til 1979.

Skotinn Jimmy McGrory er næstur með 522 mörk fyrir Celtic frá 1922 til 1937.

Þjóðverjinn Uwe Seeler er þriðji með 507 mörk fyrir Hamburger SV frá 1953 til 1972.

Portúgalinn Eusebio, sem reyndar kom frá þáverandi portúgölsku nýlendunni Mósambík, skoraði 473 mörk fyrir Benfica frá 1960 til 1975.

Messi er búinn að skora flest mörk allra í Meistaradeildinni á yfirstandandi tímabili en hann gerði 10 mörk í 6 leikjum Barcelona í riðlakeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert