Englendingar ollu uppnámi á Spáni

Englendingar fagna einu af þremur mörkum sínum gegn Spáni í …
Englendingar fagna einu af þremur mörkum sínum gegn Spáni í kvöld. AFP

Englendingar fóru illa með Spánverja þegar þjóðirnar áttust við í 4. riðli A-deildar Þjóðadeildar UEFA í kvöld. Lokatölur urðu 3:2 og er þetta í fyrsta sinn í sögunni sem Spánverjar fá á sig þrjú mörk í mótsleik á heimavelli.

Raheem Sterling hafði ekki skorað mark fyrir England í þrjú ár fyrir leikinn í kvöld en hann stimplaði sig svo sannarlega inn á ný. Hann kom Englandi yfir eftir undirbúning Marcus Rashford á 16. mínútu og rúmum tíu mínútum síðar skoraði Rashford eftir undirbúning Harry Kane.

Kane lagði svo upp þriðja mark Englands á 38. mínútu þar sem Sterling skoraði annað mark sitt, en fyrir leikinn í kvöld hafði hann aldrei tvö mörk í leik fyrir England. Staðan 3:0 í hálfleik fyrir gestina, en Paco Alcácer minnkaði muninn fyrir Spánverja í síðari hálfleik. Sergio Ramos skoraði svo annað mark Spánar í blálokin en lengra komust heimamenn ekki.

Eins og áður segir er þetta í fyrsta sinn sem Spánn fær á sig þrjú mörk í mótsleik á heimavelli. Þetta var fyrsti sigur Englands í riðlinum og er liðið nú með fjögur stig. Spánverjar hafa sex stig en Króatar eitt.

Úrslit í neðri deildum Þjóðadeildarinnar má sjá hér að neðan.

B-deild:
Bosnía – Norður-Írland 2:0

C-deild:
Eistland – Ungverjaland 3:3
Finnland – Grikkland 2:0

D-deild:
Hvíta-Rússland – Moldóva 0:0
Lúxemborg – San Marínó 3:0

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert