Enginn aðgangseyrir allt tímabilið

Frá heimaleik Kopparbergs/Göteborg í haust þar sem vel var mætt …
Frá heimaleik Kopparbergs/Göteborg í haust þar sem vel var mætt á völlinn. Ljósmynd/goteborgfc.se

Sænska knattspyrnufélagið Kopparbergs/Göteborg, sem er með eitt af bestu kvennaliðum Svíþjóðar, hefur ákveðið að vera með ókeypis aðgang að öllum heimaleikjum sínum í sænsku úrvalsdeildinni og bikarkeppninni á næsta keppnistímabili.

Kopparbergs/Göteborg, eða Gautaborg eins og félagið er oftast nefnt, var með þriðju bestu aðsókn í úrvalsdeildinni á þessu ári en að meðaltali mættu 1.807 manns á heimaleiki liðsins. Aðeins Piteå og Hammarby voru með betri aðsókn.

Gautaborg veitti Piteå og Rosengård harða keppni um meistaratitilinn þar sem liðin þrjú áttu möguleika fram í lokaumferðina. Gautaborg endaði að lokum í öðru sæti, stigi á eftir Piteå, eftir 4:2 sigur á Glódísi Perlu Viggósdóttur og samherjum í Rosengård í síðasta leiknum.

Forráðamenn Gautaborgarliðsins gerðu tilraunir undir lok tímabilsins með að vera með ókeypis aðgang á leiki í boði fyrirtækja. Það hefur nú hlaðið utan á sig, félagið hefur fengið ellefu styrktaraðila til að „kosta“ heimaleiki ársins 2019 og ætlar þar með að sleppa alveg allri miðasölu á leikina.

„Þetta sló í gegn og fyrirtækin sem tóku þátt í þessu með okkur upplifðu þetta á afar jákvæðan hátt. Það sem skipti mestu máli var að aðsóknin jókst verulega og varð sú besta í okkar sögu,“ sagði fjölmiðlafulltrúi félagsins, Tore Lund, á vef Gautaborgar.

„Kvennafótboltinn á skilið góða aðsókn og við munum leggja okkur öll fram um að fá enn fleira fólk á leikina okkar, og gera okkar til þess að enn fleiri en áður uppgötvi og upplifi úrvalsdeild kvenna,“ sagði Lund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert