Sjaldséð tap hjá Juventus í skrautlegum leik

Lazio vann sterkan sigur á Juventus.
Lazio vann sterkan sigur á Juventus. AFP

Juventus mátti þola sitt fyrsta tap á tímabilinu í ítölsku A-deildinni í fótbolta er liðið heimsótti Lazio í kvöld. Lokatölur urðu 3:1, Lazio í vil. 

Cristiano Ronaldo kom Juventus yfir á 25. mínútu en Luiz Felipe jafnaði í uppbótartíma fyrri hálfleiks og var staðan í leikhléi 1:1. 

Juventus varð fyrir áfalli á 69. mínútu er Juan Cuadrado fékk beint rautt spjald. Lazio nýtti sér liðmuninn því fimm mínútum síðar kom Sergej Savic liðinu í 2:1.

Ciro Immobile gat skorað þriðja mark Lazio en Wojciech Szczęsny varði vítaspyrnu frá honum á 79. mínútu. Lazio skoraði hins vegar þriðja markið í uppbótartíma er Felipe Caicedo skoraði og þar við sat. 

Inter er í toppsætinu með 38 stig, tveimur stigum meira en Juventus. Lazio er í þriðja sæti með 33 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert