Aron og Jóhannes upp um deild eftir ótrúlega dramatík

Aron Sigurðarson og félagar eru komnir upp um deild.
Aron Sigurðarson og félagar eru komnir upp um deild.

Aron Sigurðarson og samherjar hans hjá Start tryggðu sér í kvöld sæti í efstu deild Noregs í fótbolta, þrátt fyrir 4:3-tap á útivelli gegn Arnóri Smárasyni og félögum í Lillestrøm. Lillestrøm er hins vegar fallið úr deildinni og leikur í B-deild á næsta tímabili. 

Það verður í fyrsta skipti frá 1975, eða í 45 ár, sem Lillestrøm leikur ekki í efstu deild í Noregi.

Start, sem leikur undir stjórn Jóhannesar Harðarsonar, vann fyrri leikinn á heimavelli, 2:1, og vinnur því einvígið á útivallarmörkum. Það var hins vegar fátt sem benti til annars en að Lillestrøm væri að fara að halda sæti sínu í efstu deild, þar sem liðið komst í 4:0 í seinni hálfleik. 

Alexander Melgalvis kom Lillestrøm í 4:0 á 61. mínútu og þurfti Start að skora þrjú mörk til að eiga möguleika á að fara upp. Martin Ramsland tók þá til sinna ráða og skoraði þrjú mörk á ótrúlegum sex mínútna kafla skömmu fyrir leikslok og tryggði Start sæti í deild þeirra bestu. 

Aron Sigurðarson átti gott tímabil hjá Start, en hann skoraði bæði mörk liðsins í fyrri leik liðanna, og 17 mörk alls á leiktíðinni. Aron lék allan leikinn í kvöld, en Arnór Smárason kom inn á sem varamaður hjá Lillestrøm á 85. mínútu.

Þrjú Íslendingalið fóru upp úr B-deildinni á tímabilinu. Aalesund, með þá Hólmbert Aron Friðjónsson, Aron Elís Þrándarson, Davíð Kristján Ólafsson og Daníel Leó Grétarsson innanborðs, vann öruggan sigur í deildinni og Viðar Örn Jónsson og Emil Pálsson hjá Sandefjord urðu í öðru sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert