Leikmenn liðanna tólf fara í bann

Aleksander Ceferin, forseti UEFA.
Aleksander Ceferin, forseti UEFA. AFP

Leikmenn liðanna tólf sem hyggjast stofna nýja „ofurdeild“ í Evrópufótboltanum eiga allir keppnisbann yfir höfði sér í mótum á vegum UEFA, að sögn Aleksanders Ceferins, forseta Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA.

„Ég legg ofuráherslu á að UEFA og knattspyrnuheimurinn standa sameinuð gegn þessum ósæmilegu og sjálfselsku fyrirætlunum sem byggjast á tómri græðgi. Þetta dæmi er ein stór vitleysa og með þessari hugmynd er blautri tusku kastað framan í alla aðdáendur fótboltans og í okkar þjóðfélag. Við leyfum þeim ekki að taka fótboltann frá okkur,“ sagði Ceferin á ársþingi UEFA í Sviss í dag.

„Við erum að skoða stöðuna með lögfræðingum okkar en við munum beita öllum þeim refsingum sem mögulegt er, og skýrum frá þeim um leið og þær liggja fyrir. Mín skoðun er sú að leikmenn þessara liða verði að fara í keppnisbann frá öllum okkar mótum,“ sagði Ceferin enn fremur.

Spurður hvort UEFA geti haldið Meistaradeild Evrópu án liðanna tólf svaraði hann: „Já, auðvitað. Það er fullt af góðum félögum í Evrópu. Við höldum áfram, með eða án þessara félaga,“ sagði Ceferin.

Svikarar hjá Manchester United og Juventus

Ceferin vandaði framkvæmdastjórum Manchester United og Juventus, þeim Ed Woodward og Andrea Agnelli, ekki kveðjurnar.

„Ég var afbrotalögfræðingur í 24 ár en ég kynntist aldrei svona fólki. Ef ég byrja á Ed Woodward, þá hringdi hann í mig á fimmtudaginn og sagðist mjög sáttur við breytingarnar á Meistaradeildinni og kvaðst styðja þær heils hugar. Hann hafði þá greinilega samið um eitthvað allt annað.

Ég er mest vonsvikinn yfir Andrea Agnelli. Ég hef  aldrei vitað um neinn sem lýgur eins miklu og hann hefur gert núna. Það er ótrúlegt,“ sagði forseti UEFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert