Í skammarkrókinn fyrir uppátæki helgarinnar

Naby Keita.
Naby Keita. Ljósmynd/Werder Bremen

Knattspyrnumaðurinn Naby Keita spilar ekki meira með þýska 1. deildarfélaginu Werder Bremen á tímabilinu.

Þetta tilkynnti Clemens Fritz, yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu, á blaðamannafundi í vikunni.

Keita, sem er 29 ára gamall, neitaði að ferðast með þýska liðinu í síðasta útileik gegn Bayer Leverkusen á sunnudaginn eftir að hann komst að því að hann yrði á bekknum í leiknum.

Fritz greindi frá því á sunnudaginn að Keita yrði refsað fyrir uppátækið og hann tilkynnti svo í dag að hann myndi ekki leika meira með liðinu á tímabilinu.

Keita gekk til liðs við Werder Bremen sumarið 2023 eftir að samningur hans við Liverpool rann út en hann lék með enska félaginu frá 2018 til 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert