PSG sneri taflinu við gegn tíu Börsungum

Kylian Mbappé fagnar öðru marki sínu í kvöld.
Kylian Mbappé fagnar öðru marki sínu í kvöld. AFP/Franck Fife

París SG tryggði sér sæti í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla með því að leggja Barcelona að velli, 4:1, í síðari leik liðanna í Barcelona í kvöld.

Barcelona vann fyrri leikinn í París 3:2 og PSG vann því einvígið samanlagt 6:4. Frakklandsmeistararnir mæta Borussia Dortmund í undanúrslitum.

Útlitið var gott fyrir Börsunga þegar Raphinha, sem skoraði tvívegis í fyrri leiknum, kom heimamönnum í forystu með skoti af örstuttu færi eftir frábæran undirbúning ungstirnisins Lamine Yamal.

Eftir tæplega háltíma leik dró til tíðinda þegar Ronald Araújo, miðvörður Barcelona, togaði Bradley Barcola niður sem aftasti maður og fékk beint rautt spjald.

Fimm mínútum fyrir leikhlé lagði Barcola upp jöfnunarmark PSG fyrir Ousmane Dembélé, sem skoraði einnig gegn sínum gömlu félögum í fyrri leiknum.

Xavi sá rautt

Staðan var 1:1 í hálfleik en snemma í þeim síðari kom Vitinha gestunum frá París í forystu þegar hnitmiðað skot hans fyrir utan vítateig hafnaði niðri í bláhorninu.

Xavi, knattspyrnustjóri Barcelona, var ekki sáttur við dómgæsluna í leiknum og fékk beint rautt spjald skömmu eftir mark Vitinha fyrir kröftug mótmæli.

Mbappé gerði út af við heimamenn

Eftir klukkutíma leik fékk PSG dæmda vítaspyrnu þegar Joao Cancelo braut á Dembélé innan vítateigs.

Fyrirliðinn Kylian Mbappé steig á vítapunktinn og skoraði af gífurlegu öryggi, staðan var þá orðin 3:1.

Stuttu eftir það fékk Óscar Hernández, aðstoðarþjálfari Barcelona, sitt annað gula spjald og þar með rautt. Rauðu spjöldin í herbúðum Börsunga voru því orðin þrjú.

Einni mínútu fyrir leikslok innsiglaði Mbappé svo sigurinn með fjórða marki gestanna þegar hann skoraði af stuttu færi eftir skyndisókn þar sem Marc-Andre ter stegen hafði varið glæsilega í tvígang áður en stórstjarnan skoraði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert