Júlíus í 2. sætið

Júlíus Magnússon
Júlíus Magnússon mbl.is/Óttar Geirsson

Júlíus Magnússon og félagar hans í Frederikstad eru í 2. sæti í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta eftir 4:1 útisigur gegn KFUM Oslo. Haugesund gerði jafntefli í fyrsta leik liðsins eftir að Óskar Hrafn Þorvaldsson lét af störfum sem þjálfari liðsins.

Frederikstad er með fjórtán stig í 2. sæti, jafn mörg stig og Brann og Molde, fimm stigum fyrir neðan Bodö/Glimt sem tróna á toppi deildarinnar. Júlíus spilaði allan leikinn fyrir Frederikstad en hann er jafnframt fyrirliði nýliðanna.

Hlynur Freyr Karlsson var í byrjunarliði Haugesund í annað skipti á tímabilinu en Anton Logi Lúðvíksson kom inn sem varamaður þegar átta mínútur voru eftir. Anton Logi hafði byrjað alla leiki liðsins á tímabilinu og spurning hvort brotthvarf Óskars Hrafns muni hafa áhrif á spiltíma Antons Loga.

Anton Logi Lúðvíksson
Anton Logi Lúðvíksson Ottar Geirsson

Viðar Ari Jónsson lék 72 mínútur fyrir HamKam og Brynjar Ingi Bjarnason spilaði síðustu þrjár mínúturnar í 2:2 jafntefli. HamKam eru í næst neðsta sæti með fjögur stig eftir átta leiki en Haugesund er þremur stigum á undan í þrettánda sæti.

Patrik Gunnarsson stóð í marki Viking sem lagði Loga Tómasson og félaga í Strømsgodset, 1:0 á heimavelli Strømsgodset. Logi fór af velli á 72. mínútu en Patrik þótti standa sig vel og hélt hreinu. Strømsgodset er í sjöunda sæti og Viking í fimmta.

Patrik Sigurður Gunnarsson
Patrik Sigurður Gunnarsson Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert