Vaknaður úr dái eftir fall

Félix Garreta í leik með Real Betis.
Félix Garreta í leik með Real Betis. Ljósmynd/Real Betis

Spænski knattspyrnumaðurinn Félix Garreta vaknaði á miðvikudag úr dái á sjúkrahúsi í heimalandinu eftir að hann hlaut höfuðáverka í kjölfar þess að hann féll á heimili sínu í síðustu viku.

Garreta, sem er tvítugur miðvörður, leikur að láni hjá Amorebieta frá Real Betis, þar sem hann hefur verið lykilmaður í spænsku B-deildinni á tímabilinu.

Á spænska miðlinum Relevo er greint frá því að Garreta hafi slasast á heimili sínu síðastliðinn föstudag og verið fluttur á sjúkrahús, þar sem honum var haldið sofandi.

Á miðvikudag hafi Garreta svo vaknað úr dái og borið kennsl á fjölskyldumeðlimi sína. Læknir hans sagði það vera jákvætt skref en að ekkert væri í hendi enn þá.

Garreta mun áfram dvelja á sjúkrahúsi þar sem fylgst verður náið með líðan hans næstu daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert