Guðni Bergsson leikur í kvöld sinn síðasta leik með landsliðinu

í síðasta mánuði sagði hann skilið við Bolton eftir glæsilegan feril með enska liðinu, hann lék síðasta heimaleikinn með landsliðinu á móti Færeyingum á Laugardalsvelli á laugardaginn og í Kaunas í kvöld lýkur ferli þessa frábæra varnarmanns með landsliðinu. Guðni lék fyrsta landsleik sinn árið 1984 og átti fast sæti í landsliðinu allt til ársins 1997. Hann var þá settur út í kuldann af Guðjóni Þórðarsyni eins og frægt er en sneri til baka nær sex árum síðar þegar Atli Eðvaldsson kallaði hann í hópinn fyrir leikinn á móti Skotum í mars.

Spurður hvort eitthvað hafi verið þrýst á hann að gefa kost á sér áfram með landsliðinu segir Guðni: "Það hefur ekkert komið til tals. Við höfum fyrst og fremst einbeitt okkur að leikjunum, fyrst á móti Færeyingum og nú gegn Litháum. Það er ljóst að ég spila ekki með Val heima í sumar og ég held að það eitt og sér útiloki að ég verði með í þremur síðustu leikjunum. Það yrði ekki æskilegt landsliðsins vegna því maður verður að vera í góðri þjálfun og leikæfingu til að spila með landsliðinu og ég verð ekki í því standi síðar í sumar." Guðni segir kveðjuleik sinn vera aukaatriði en hann segir það gefa augaleið að það yrði gaman fyrir sig að kveðja liðið með sigurleik og mundi gera hann eftirminnilegri fyrir vikið. "Það má heldur ekki gleyma því að Rúnar leikur sinn 100. landsleik þannig að það yrði gaman fyrir hann eins og mig að fá sigurleik.

Leikurinn er mjög mikilvægur fyrir okkur og auðvitað stefnum við að því að leggja Litháana að velli. Við getum gert það með góðri frammistöðu en auðvitað verður allt að ganga upp hjá okkur ef það á að takast.

Litháarnir hafa sýnt það í undanförnum leikjum að þeir hafa yfir að ráða öflugu liði og eflaust er sjálfstraustið gott hjá þeim. Þeir eiga góða möguleika á að ná öðru sætinu og jafnvel því fyrsta og því verður ekkert gefið í leiknum. Það er stutt á milli hláturs og gráts í þessu. Það sást best í leiknum við Færeyinga. Jafntefli þar hefði gert vonir okkar um að gera góða hluti í riðlinum nánast að engu en þetta glæsilega mark hjá Tryggva heldur voninni lifandi hjá okkur í riðlinum. Það sem skiptir sköpum fyrir okkur er að við mætum til leiks með rétt hugarfar og verðum ákveðnir í öllum okkar aðgerðum. Við vitum að það hefur ekki gengið sem skyldi á útivöllum og ég held að það sé löngu orðið tímabært að landa einum sigri á erlendri grundu. Ég tel liðið hafa burði til þess. Við vorum óheppnir að tapa í Skotlandi og eftir þetta mark frá Tryggva held ég að liðið hafi öðlast meira sjálfstraust. Við þurfum að spila af yfirvegun og festu og sem ein sterk liðsheild. Það yrði gaman fyrir allan hópinn og íslenska knattspyrnu ef okkur tækist að krækja í þrjú stig.

Með því værum við aftur komnir í möguleika á að ná öðru sætinu og það mundi gera leikina sem eftir eru spennandi og áhugaverða."

Guðmundur Hilmarsson skrifar frá Kaunas

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert