Arsenal enskur meistari í kvennaflokki

Arsenal tryggði sér enska meistaratitilinn í knattspyrnu kvenna í gærkvöld með því að sigra Chelsea á útivelli, 5:1. Þetta var nítjándi sigur Arsenal í jafnmörgum leikjum í deildinni og liðið er nú sautján stigum á undan næsta liði, Everton, en Arsenal á aðeins eftir að spila þrjá leiki.

Þetta er fjórða árið í röð sem Arsenalkonur hampa meistaratitlinum en þær eru jafnframt komar í úrslit bikarkeppninnar þar sem þær mæta Charlton. Þá á Arsenal góða möguleika á að verða Evrópumeistari í fyrsta skipti eftir útisigur á Umeå, 1:0, í fyrri úrslitaleik liðanna í Svíþjóð um síðustu helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert