„Hefur burði til að bæta sig frekar“

Helgi Sveinsson.
Helgi Sveinsson. Ljósmynd/Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir

„Þetta er virkilega gleðilegt og Helgi hefur burði til þess að bæta þennan árangur enn frekar. Það er ekki eins og þetta hafi verið einhver heppni hjá honum. Glæsilegur íþróttamaður,“ sagði Einar Vilhjálmsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands og Íslandsmethafi í spjótkasti, við Morgunblaðið um heimsmet Helga Sveinssonar í Laugardalnum á miðvikudagskvöldið.

Einar hefur á undanförnum árum verið nokkrum spjótkösturum innan handar og bættist Helgi í þann hóp í vetur. „Þetta er skemmtilega blandaður hópur bráðefnilegra spjótkastara sem ég hef fengið að fylgjast með á kvöldin. Helgi smellpassaði inn í hópinn frá fyrstu æfingu. Andinn í hópnum er góður og slíkt hefur mikið að segja í framvindu íþróttamanns. Bæting Helga á þessum tímapunkti var fyrirsjáanleg fyrir okkur sem höfum starfað með honum í þessum æfingahópi. Hann hefur náð nýju valdi á íþróttinni í vetur og það verður spennandi að sjá hverju fram vindur á HM í haust og á Ólympíumótinu á næsta ári.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert