Reynt við lágmörk á Laugardalsvelli

Hafdís Sigurðardóttir.
Hafdís Sigurðardóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

JJ-mót Ármanns í frjálsum íþróttum fer fram á Laugardalsvelli í kvöld. Þar munu þónokkrir keppendur reyna við EM-lágmörk en fresturinn til þess rennur út 26. júní.

Hafdís Sigurðardóttir úr UFA er komin til landsins frá Svíþjóð ,þar sem hún æfir, og mun hún keppa í langstökki. Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason úr ÍR verður einnig í eldlínunni. Bæði Hafdís og Guðni hafa tryggt sér keppnisrétt á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum sem fer fram í Amsterdam í byrjun júlí.

Meðal keppenda dagsins sem munu reyna að ná lágmarki á Evrópumeistaramótið eru Ólympíufarinn Óðinn Björn Þorsteinsson úr ÍR, en hann keppir í kúluvarpi. Guðmundur Sverrisson úr ÍR sem keppir í spjótkasti og Kolbeinn Höður Gunnarsson sem keppir í 100m hlaupi. Þó horfir Kolbeinn væntanlega helst til EM-lágmarks í 400m hlaupi.

 Þá verður heimsmethafinn í spjótkasti í flokki F42, Helgi Sveinsson Ármanni meðal keppenda í sinni grein. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert