Sjö Íslendingar á NM í Finnlandi

Hin unga Freyja Mist Ólafsdóttir gæti gert atlögu að Norðurlandametum …
Hin unga Freyja Mist Ólafsdóttir gæti gert atlögu að Norðurlandametum um helgina. Ljósmynd/Facebook

Norðurlandamótið í ólympískum lyftingum fer fram í Rovaniemi í Finnlandi á morgun og á sunnudag. Ísland á sjö keppendur á mótinu; fimm í kvennaflokki og tvo í karlaflokki.

Búast má við harðri baráttu um verðlaunasæti á mótinu en íslensku keppendurnir munu allir vera í toppformi.

Í -58 kg flokki kvenna keppir Jakobína Jónsdóttir (LFR). Í -63 kg flokk kvenna keppa Anna Hulda Ólafsdóttir (LFR) og Björk Óðinsdóttir (KFA). Í -69 kg flokki keppir Aníta Líf Aradóttir (LFR), og í -75 kg flokki keppir Freyja Mist Ólafsdóttir (LFR). Freyja Mist er á síðasta ári í unglingaflokki 20 ára og yngri og setti í ágúst síðastliðnum Norðurlandamet unglinga í snörun, jafnhendingu og samanlögðum árangri í +75kg flokki. Hún er til alls líkleg að bæta metin núna í -75kg flokk.

Í karlaflokki keppa þeir Einar Ingi Jónsson (LFR) í -69 kg flokki og Ingólfur Þór Ævarsson (KFA) í -105 kg flokki.

Freyja og Einar verða síðan aftur í eldlínunni í lok október þegar Norðurlandamót Unglinga fer fram í íþróttahúsinu Strandgötu 29-30. október en yfir 80 keppendur eru skráðir til leiks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert