Stöðugur hávaði á meðan skytturnar vanda sig

Ásgeir Sigurgeirsson
Ásgeir Sigurgeirsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skotfimimaðurinn Ásgeir Sigurgeirsson hefur verið í sérflokki með liðinu Ötlingen í þýsku 1. deildinni í loftskammbyssu í vetur. Ásgeir hefur unnið alla andstæðinga sína það sem af er vetri og ekki látið vonbrigðin yfir því að vera hársbreidd frá því að komast á Ólympíuleikana sitja í sér.

„Tímabilið hefur farið vel af stað. Mér gengur vel í þýsku deildinni og það er allt á réttri leið hjá mér. Keppnin í þýsku deildinni er í raun undirbúningstímabil fyrir mig, fyrir stómótin sem bíða á næsta ári. Ég hef verið að vinna landsliðsmenn frá Serbíu og Þýskalandi meðal annars. Sem skotmaður númer eitt hjá mínu liði þá mæti ég skotmanni númer eitt hjá hinum liðunum, og það eru yfirleitt frekar góðir skotmenn. Það er því mjög gaman að vera sá eini í deildinni sem unnið hefur alla sína andstæðinga,“ segir Ásgeir.

Á meðan Ásgeir sér um að skjóta betur en bestu menn í liðum andstæðinganna hafa liðsfélagar hans ekki staðið sig eins vel. Keppt er í fimm manna liðum og hefur Ötlingen tapað þremur af síðustu fjórum leikjum sínum 4:1. Liðið á því ekki lengur von um að komast í úrslitakeppnina um meistaratitilinn þegar deildinni lýkur 15. janúar, en er í 9. sæti af 12 liðum suðurdeildarinnar og mun ekki falla.

Ásgeir starfar á Íslandi og æfir í Egilshöll, en hann flýgur út til Þýskalands til að spila leikina, alls sex ferðir frá október til janúar.

„Ég er bara úti í einhverja þrjá daga á meðan ég er að keppa, víðs vegar um Suður-Þýskaland, og flýg svo heim. Félagið sér um að borga fyrir mig flug, gistingu og uppihald, svo ég þarf ekki að borga neitt sjálfur eða taka af mínum styrkjum,“ segir Ásgeir.

Nánar er rætt við Ásgeir í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert