Tvíbætti heimsmetið sama daginn

Adam Peaty fagnar fyrra heimsmetinu í morgun.
Adam Peaty fagnar fyrra heimsmetinu í morgun. AFP

Það er óhætt að segja að breski sundkappinn Adam Peaty hafi átt góðu gengi að fagna í dag, en hann bætti eigið heimsmet í 50 metra bringusundi tvívegis á heimsmeistaramótinu í 50 metra laug sem stendur yfir í Búdapest.

Í undanrásum í morgun synti hann á 26,10 sekúndum og setti heimsmet, en fyrra metið, 26,42 sekúndur, hafði staðið í tvö ár. Í undanúrslitum í dag gerði hann svo enn betur og varð um leið fyrsti sundmaðurinn sem fer í 50 metra bringusundið á undir 26 sekúndum. Tími hans var 25,95 sekúndur.

En þetta voru ekki einu heimsmetin sem féllu á HM í dag en Kylie Masse frá Kanada sló metið í 100 metra baksundi þegar hún synti á 58,10 sekúndum. Hún bætti metið um 2/100 úr sekúndu.

Fjórða heimsmetið féll svo undir kvöld þegar Lily King sló heimsmetið í 100 metra bringusundi, en hún kom í bakkann á 1:04,13 mínútum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert